Mér sýnist það vera deginum ljósara eftir að hafa fylgst með fréttum undanfarið að týndi hlekkurinn sé fundinn og leynist í Krónubankanum.Ekki ætla ég að fara fram á að fá fundarlaun þar sem efnahagurinn er í molum og ekki til borð fyrir báru. Ég ætla ekki að nafngreina hlekkinn þar sem hann fengi ekki stundlegan frið fyrir ágangi frétta og fræðimanna, nóg hefur hann á sinni könnu nú þegar. Það sem vísinda og fræðimönnum kemur líklega mest á óvart er að þessi svokallaði týndi hlekkur skuli finnast á lífi en ekki í einhverjum fornleifauppgreftri þar sem þeir hafa alltaf haldið að þeir finndu hann.
TAPAÐ/FUNDIÐ
Að öll við séum komin út af apa
ýmsum finnst sú kenning vera synd.
Talsvert margar aldir tók að skapa
tegundina í núverandi mynd.
Almættið má aldrei neinu gleyma
og afsíðis í laumi fékk því sett
eitt ófrágengið eintak til að geyma
og geta sannað: Kenningin er rétt.
Sá tengiliður tegundanna á milli
töluvert var erfiður í reynd,
því enga mennska öðlast hafði snilli
og alveg glatað apans eðlisgreind.
Hann slapp á brott og ekki er því að neita
að Almættinu illan gerði hrekk.
Því síðan hafa ýmsir ávallt leitað
um allan heim að þessum \\\týnda\\\ hlekk.
En nú má þessu leitarfári linna
af mörgum létt er áhyggjum við það,
tókst það fyrir tilviljun að finna
hinn \\\týnda\\\ hlekk á þessum vinnustað.
Það fyrirbæri er að fárra skapi,
finnast um það dæmi forn og ný.
Að hálfu leyti maður, hálfur api,
og hugarfar og hegðun eftir því.
En svona eftir á að hyggja sýnist mér að það séu ansi margir týndir hlekkir að koma fram á sjónarsviðið nú síðustu vikurnar.